Olíu- og gasfyrirtækið BP kynnti í síðustu viku spá um orkuþörf á alþjóðavísu til ársins 2035. Í skýrslu BP um orkueftirspurn, og -framboð, kemur fram að þrátt fyrir að orkunotkun í heiminum fari vaxandi á næstu árum, um 41% frá 2012 til 2035, muni þó hægjast á vextinum á næstum árum. Orkunotkun jókst um 52% síðustu 20 ár og á síðasta áratug hefur eftirspurn eftir orku aukist um 30%.

Um 95% af vextinum í orkunotkun á næstu árum má rekja til landa sem ekki eru meðlimir að Efnahags og framfarastofnuninni (OECD). Talið er að Kína og Indland muni standa á bak við rúmlega helming þeirrar aukningar sem búist er við í orkunotkun heimsins fram til ársins 2035. Ef spá BP gengur eftir mun orkunotkun landa utan OECD vera um 69% meiri árið 2035 en hún var árið 2012, en aðeins um 5% meiri meðal OECD landa. Gerir spáin ráð fyrir því að undir lok tímabilsins muni orkunotkun meðal þróaðra landa byrja að dragast saman.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .