Búist er við því að nýjustu hagtölur í Indlandi, fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins, muni sýna að aðgerðir stjórnvalda til þess að hægja á miklum vexti í hagkerfinu hafi borið árangur. Nákvæmar hagtölur fyrir fyrsta fjórðung ársins munu liggja fyrir á morgun, samkvæmt frétt BBC í dag. Hagvöxtur í Indlandi undanfarin ár hefur verið gríðarlega mikill, eða á bilinu 6 til 10 prósent á ári.

Að undanförnu hefur Seðlabankinn í Indlandi hækkað stýrivexti til þess að reyna að hemja verðbólgu en hún hefur aukist mikið undanfarna mánuði. Horft til síðustu 16 mánaða mælist hún nú átt prósent, að því er breska ríkisútvarpið BBC greindi frá í dag.

Seðlabankinn í Indlandi hækkaði vexti síðast um 0,5 prósentustig í 7,25% þriðja maí sl.