Hægst hefur á hækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu, en á síðustu tólf mánuðum hækkaði fermetraverð fasteigna um 4,6%, samanborið við 19% hækkun á tímabilinu júní 2016 til júní 2017. Sérstaklega hægðist á hækkun fermetraverðs íbúða í fjölbýli, en fermetraverð íbúða í fjölbýli hækkaði aðeins um 0,2% á síðustu tólf mánuðum, samanborið við 21% hækkun á tímabilinu júní 2016 til júní 2017. Þetta kemur fram í tölfræði frá Þjóðskrá Íslands.

Mikið hefur verið rætt um erfiðleika ungs fólks á fasteignamarkaði í samfélaginu og því kannaði Viðskiptablaðið hvernig verð á litlum íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur þróast. Skoðaðar voru 50 til 70 fermetra íbúðir og stuðst við upplýsingar úr verðsjá Þjóðskrár.

Upplýsingarnar í verðsjánni byggja á þinglýstum kaupsamningum fasteigna. Viðskiptablaðið bar meðalverð á höfuðborgarsvæðinu fyrstu sex mánuði ársins 2018 saman við meðalverð fyrstu sex mánuði ársins 2017. Til þess að sjá meðalverð í Garðabæ og Mosfellsbæ þurfti reyndar að skoða meðalverð yfir lengra tímabil eða átta mánuði. Það er vegna þess að verðsjáin birtir einungis upplýsingar um verð ef þremur eða fleiri samningum hefur verið þinglýst á því tímabili sem skoðað er.

Garðabær og Mosfellsbær hækka mest

Meðalverð á 50 til 70 fermetra íbúðum á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 7% á milli ára, en á síðasta ári nam hækkun milli ára rúmum 20%. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs var meðalfermetraverð á litlum íbúð- um rúmlega 525 þúsund krónur, en í júní 2016 var það rúmlega 409 þúsund krónur.

Samkvæmt þinglýstum samningum er meðalstærð íbúðanna ríflega 61 fermetri. Slík íbúð kostar núna 31,8 milljónir, en fyrir einu ári síðan kostaði slík íbúð 30,5 milljónir. Af þeim sex sveitarfélögum sem könnunin náði til, er hækkunin svipuð í fjórum eða á bilinu 0 til 4% á einu ári. Tvö sveitarfélög skera sig úr en það er annars vegar Garðabær, þar sem hækkunin nemur 19%, og Mosfellsbær þar sem hækkunin nemur 14%. Þó ber að varast að draga of miklar ályktanir varðandi þróun íbúðaverðs í Garðabæ, þar sem einungis fjórir til fimm kaupsamningar liggja til grundvallar fyrir hvert ár. Í Mosfellsbæ ber svo að taka tillit til þess að nýtt hverfi bættist við sveitarfélagið með nýjum íbúðum og því ekki óeðlilegt að meðalverð í sveitarfélaginu hafi hækkað milli ára. Meirihluti þinglýstra kaupsamninga á þessu ári í Mosfellsbæ hefur verið í þessu nýja hverfi, eða 20 af 28.

Ódýrast í Hafnarfirði

Af þessum litlu íbúðum er fermetrinn dýrastur í Garðabæ, þar sem hann kostar 577 þúsund en þar á eftir kemur Seltjarnarnes þar sem fermetraverðið er 536 þúsund. Ódýrasta fermetraverð er í Hafnarfirði eða 478 þúsund.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .