*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 27. júní 2017 12:27

Hægist á launahækkunum

Nokkuð hefur hægst á launahækkunum á síðustu misserum. Kaupmáttur launa jókst því um 3% í maí og var 7,5% meiri þá en fyrir ári síðan.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Laun á almenna markaðnum hækkuðu um 0,7% á milli fjórða ársfjórðungs 2016 og þess fyrsta 2017. Á sama tíma hækkuðu laun á opinbera markaðnum um 1,3%, 0,6% hjá starfsmönnum ríkisins, og 2% hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Sífellt hefur hægt á hækkunartaktinum frá aprílmánuði í fyrra, þegar árshækkunin náði  hámarki í 13,4%. Hækkun launavísitölunnar er óvenju mikil nú og er meginástæðan 4,5% samningsbundin áfangahækkun á almenna vinnumarkaðnum þann 1. maí. Kaupmáttur launa jókst því um 3% í maí og var 7,5% meiri þá en fyrir ári síðan að því er kemur fram í Hagsjá Landsbankans

Launavísitalan hækkaði um 3,2% á milli apríl og maí og alls hefur hún hækkað um 7,8% frá maí 2016. Vísitala kaupmáttar launa náði hámarki á árinu 2007 eftir stöðuga hækkun frá árinu 1994. Á milli áranna 2007 og 2010 minnkaði kaupmáttur launa um rúmlega 11% en hefur aukist stöðugt síðan, sérstaklega síðustu 3 ár. Kaupmáttarvísitalan fór hæst í ágúst 2008 og náði þeirri stöðu aftur í nóvember 2014. Frá nóvember 2014 fram til maí 2017 hefur kaupmátturinn aukist um tæp 19% og er nú hærri en nokkru sinni.

Stikkorð: Landsbankinn launahækkanir Hagsjá Laun hægistá