Könnun á algengi nýrrar tækni vestanhafs bendir eindregið til þess að hún sé að komast á jafnsléttu, nýjum notendum er hætt að fjölga jafnofboðslega og fyrri ár. Sem er ekkert skrýtið, hún er orðin svo almenn að sárafáir eru eftir til þess að bætast í hópinn. Og raunar sennilegt að margar eftirlegukindurnar hafi ekki áhuga á því að notfæra sér hina nýju tækni.

Hins vegar eru ýmsar blikur á lofti um að nýtækni á borð við snjallúr sé að takast á loft (skartgripasalar hafa miklar áhyggjur af Apple Watch um þessi jól), húsbúnaðarnet eru að verða algengari og það styttist í að sýndarveruleikinn verði að veruleika.