Fyrir hverja 10 einstaklinga sem störfuðu í einkageiranum í fyrra voru 14 sem gerðu það ekki, þ.e. voru í opinberum störfum, í námi, atvinnulausir eða ekki á vinnumarkaði, svo sem vegna aldurs. Þetta sýnir stuðningsstuðull atvinnulífsins sem Viðskiptaráð hefur tekið saman síðustu árin.

Stuðullinn mældist 1,41 fyrir árið 2021 og lækkaði frá árinu 2020 þegar hann mældist 1,47. Á vef Viðskiptaráðs segir að lækkunin stafi helst af fækkun fólks utan vinnumarkaðar um 1.550, atvinnulausum fækkaði um 500 talsins og starfandi í einkageiranum fjölgaði um 5.240 manns.

Stuðullinn hafði hins vegar hækkað í fögur ár í röð frá því að hann fór niður í 1,23 árið 2016. Stuðulinn tók stökk árið 2020 en samkvæmt Viðskiptaráði vegur þar þungt fjölgun atvinnulausra auk fjölgun utan vinnumarkaðar. Einnig fjölgaði stöðugildum hins opinbera í kjölfar útbreiðslu Covid-19 farsóttarinnar og störf töpuðust í einkageiranum.

Samkvæmt Viðskiptaráði hefur störfum í einkageiranum fækkað um 2.140 og starfandi einstaklingum fjölgað um 900 á síðustu tveimur árum. Samtímis hefur stöðugildum hins opinbera fjölgað um 3.040 sem hefur orðið til þess að hlutfall opinberra stöðugilda af starfandi á vinnumarkaði hækkaði úr 20,5% árið 2019 í 22,0% í fyrra.

„Ef fjölgun opinberra starfsmanna að undanförnu er tilkomin vegna viðspyrnu við heimsfaraldrinum verður að teljast eðlilegt að þeim fækki á ný eða að það hægist að minnsta kosti verulega á fjölgun þeirra á næstu árum til að færa hlutfallið nær fyrra horfi,“ segir í grein samtakanna.

Viðskiptaráð segir að tilgangurinn með stuðlinum, sem samtökin birtu fyrst árið 2011, sé að varpa ljósi á hvernig jafnvægið á milli umsvifa einkageirans og hagkerfisins þróast og meta jafnframt styrk hagkerfisins til að standa undir nauðsynlegri þjónustu hins opinbera.