Pedro Sánchez, sitjandi forsætisráðherra Spánar, og leiðtogi Sósíalistaflokksins tókst ekki að bæta við sig nægum þingstyrk til að mynda meirihlutastjórn í kosningunum í gær líkt og hann hafði vonast eftir, og er því ólíklegt að nú takist að mynda nýja ríkisstjórn þrátt fyrir mikla fylgisaukningu tveggja flokka til hægri.

Eftir að Sánchez tókst ekki að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar sem haldin voru í apríl síðastliðnum hafnaði Filipus Spánarkonungur því að fela nýjum aðila stjórnarmyndunarumboðið og var því boðað til nýrra kosninga.

Sánchez tók við sem forsætisráðherra minnihlutastjórnar eftir fall ríkisstjórnar Þjóðarflokksins í júní 2018, í kjölfar spillingarmála, en Þjóðarflokkurinn hafði fengið 33% atkvæða og 137 þingmenn af 350 í neðri deild þingsins í kosningunum 2016 og náð að mynda ríkisstjórn sem féll þó innan 20 mánaða.

En þvert á vonir starfandi forsætisráðherrans nú minnkaði fylgi flokks hans í nýju kosningunum. Jafnframt missti hinn nýji miðjusinnaði frjálslyndi Borgaraflokkur flesta þingmenn sína meðan öfgaflokkurinn Vox sem sagður er til hægri í spænskum stjórnmálum bætti miklu við sig sem og hinn miðhægrisinnaði Þjóðarflokkur Spánar.

Því er ljóst að enn stefnir í stjórnarkreppu í landinu því þingstyrkur hægriflokkanna er heldur ekki nægur til að mynda ríkisstjórn, sérstaklega þar sem þeir eru ólíklegri til að ná saman með litlum héraðsflokkum sem þvert á þá vilja auka sjálfstjórn og jafnvel sjálfstæði sinna héraða.

Hér má sjá niðurstöður síðustu þriggja kosninga:

  • Spænski sósíalíski verkamannaflokkurinn

Hefðbundinn valdaflokkur vinstra megin við miðju, fékk nú 28% og 120 þingsæti, missti 3 þingmenn frá kosningunum í apríl, þar sem hann hafði bætt við sig 38 þingmönnum.

  • Þjóðarflokkurinn

Hefðbundinn valdaflokkur hægra megin við miðju, fékk nú tæplega 21% og 88 þingmenn, bætti við sig 22 þingmönnum, en hann hafði tapað 69 þingmönnum í kosningunum fyrr á árinu.

  • Borgaraflokkurinn

Nýlegt framboð frjálslyndra miðjumanna, fékk nú 6,8% atkvæða og 10 þingmenn, missti 47 þingmenn en hann hafði unnið stórsigur í síðustu kosningum á undan og bætt við sig 25 þingmenn frá fyrstu kosningunum sem þeir buðu sig fram í árið 2016.

  • Vox flokkurinn

Enn nýrra framboð öfgasinnaðra þjóðernissinna, fékk nú 15,1% atkvæða og 52 þingmenn, bættu við sig 28 þingmönnum frá fyrstu kosningum sínum fyrr á árinu þegar þeir fengu 24 þingmenn

  • Podemos

Bandalag róttækra vinstriflokka, fengu 35 þingsæti nú, og töpuðu 7 þingsætum frá kosningunum í apríl, þegar þeir misstu 29 þingsæti frá kosningunum 2016.

  • Meira land (Más País)

Nýr klofningsflokkur úr Podemos sem fékk nú 2,4% atkvæða og 3 þingmenn.

  • Katalónskir héraðsflokkar

Fengu nú 10 þingmenn, fengu 7 síðast og 8 árið 2016.

  • Baskneskir héraðsflokkar

Fengu nú 12 þingmenn, fengu 4 síðast, og 7 þingmenn árið 2016.

Héraðsflokkur Galisíumanna fékk nú 1 þingmann og héraðsflokkur Kanaríueyjamanna 2, þeir fyrrnefndu fengu enga síðast en kanaríueyjabandalagið bætti þá við sig einum frá fyrri kosningum.