Tómahljóðið er hærra í spænska ríkiskassanum en áður var búist við, ef marka má Luis de Guindos, sem nýverið tók við embætti fjármálaráðherra Spánar. Ný ríkisstjórn tók við nokkrum dögum fyrir jól og uppgötvaði þá sér til mikillar skelfingar að útlit væri fyrir meiri halla á fjárlögum nýliðins árs en fyrrverandi ríkisstjórn hafði lýst yfir.

Fjármálaráðherrann nýi sagði í viðtali við spænska útvarpsstöð í dag ríkisstjórnina hafa af þessum sökum neyðst til þess að svíkja kosningaloforðin, grípa í taumana og hækka bæði eigna- og tekjuskatt. Forystumenn Lýðflokksins sem náðu forsætisráðherrastólnum í nóvember höfðu fyrir kosningar lofað að hækka ekki skatta á landsmenn.

Ný ríkisstjórn Spánar tekur ekki við góðu búi. Landið er eitt evruríkjanna sem óttast hefur verið síðan í fyrra að gætu lent í þroti, atvinnuleysi er 21,5% og nærri hvergi meira, og hagkerfið í algjörri kyrrstöðu.