Á vefsíðu Procura er hægt að nálgast áætlað söluverð fyrir íbúðaeignir á höfuðborgarsvæðinu. Nú hefur vefsíðan verið uppfærð og er notendum boðið að aðlaga verðmat eigna að ástandi þeirra með því að fylla út ástandslýsingu.

Í tilkynningu frá Procura segir að „ferlið sé einfalt en ítarlegt en eigendur skrá sig inn með rafrænum skilríkjum, velja sína eign og svara 19 spurningum með einkunnagjöf. Þannig er hægt að gefa sem flestum eigindum vægi í verðmati eignarinnar."

„Við vorum fyrsta fyrirtækið sem tók að birta upplýsingar um fasteignaverð einstakra eigna á vefsvæði okkar og nú göngum við skrefi lengra og erum fyrst til að gefa eigendum kost á að hafa áhrif á verðmatið með ástandslýsingu," er haft eftir G. Andra Bergmann, framkvæmdastjóra í tilkynningunni.

Auk þessa býður Procura nú upp á mjög einfaldar lánareiknivélar „þar sem notandi setur upp eigin forsendur láns og sér um leið hver afborgun er á öllum helstu fasteignalánum sem eru í boði í dag. Þá sér notandi einnig um leið hver mánaðarlegur sparnaður er við endurfjármögnun hvers láns."

Vefsíða Procura fór í loftið árið 2017 og hefur alla tíð verið gjaldfrjáls. Félagið sameinaðist vefsíðunni Second fyrir nokkrum misserum en sú síða bauð upp á samskonar þjónustu. Vefsíðan Aurbjörg , sem er í eigu Two Birds, býður upp á verðmat gegn gjaldi en á síðunni er einnig boðið upp ýmsa aðra þjónustu, sem er gjaldfrjáls.