*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 24. september 2015 12:11

Hægt að búa til sínar eigin spurningar í QuizUp

Ný breyting á QuizUp er sú stærsta sem nokkru sinni hefur verið gerð á leiknum, að sögn framkvæmdastjóra Plain Vanilla.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Með uppfærslu á QuizUp munu notendur leiksins geta búið til sínar eigin spurningar og spurningaflokka í leiknum. Viðbótin, sem ber nafnið My QuizUp, þýðir að notendur munu deilt sínum eigin spurningum með öðrum notendum spurningaleiksins vinsæla.

Í tilkynningu frá Plain Vanilla segir að sem stendur séu yfir 750 þúsund spurningar í 1.500 flokkum í leiknum en að vonir standi til að fjöldi spurninga margfaldist með þessari breytingu.

„Í þessu felast endalausir möguleikar fyrir jafnt einstaklinga sem hópa eða fyrirtæki, t.d. spurningar um afmælisbörn í afmælum, um fyrirtæki og starfsfólk í starfsmannafögnuðum eða hópeflum, um brúðhjón í brúðkaupum, um námsefni í kennslustund o.s.frv,“ segir í tilkynningunni. Þá er bent á að í QuizUp verði nú mögulegt að spyrja og svara spurningum á öllum tungumálum heims, þar með talið íslensku.

Haft er eftir Þorsteini Baldri Friðrikssyni, framkvæmdastjóra Plain Vanilla, að alveg frá upphafi hafi fyrirtækið viljað gera notendum QuizUp kleift að búa til sína eigin spurningaflokka. Það hafi þegar sýnt sig hjá mörgum stærstu netfyrirtækjum heims að vinsældir þeirra hafi aukist þegar notendum hafi verið gefnar frjálsar hendur. Um sé að ræða stærstu breytingu sem gerð hafi verið á Quizup.

Stikkorð: QuizUp