Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptadeild Háskólana í Reykjavík, segir í samtali við RÚV að það sé vel þess virði að skoða tillögur Samtaka atvinnulífsins um hærri grunnlaun og lægri álagsgreiðslur.

„Ég held að það sé vel þess virði að skoða þetta vegna þess að við höfum vitað lengi að framleiðsla á mann er tiltölulega há hér á landi en aftur á móti framleiðni á klukkustund ekki svo há,“ segir Katrín í samtali við RÚV.

Hún segir að ástæðan sé meðal annars sú að hvatinn sé mikill til að vinna yfirvinnu hér á landi. Þarna sjái hún þess vegna möguleika á því að auka lífsgæði allra með því að búa til sömu verðmæti á styttri tíma.

Katrín segir hins vegar að kerfið gæti haft í för með sér að atvinnurekendur nýttu sér að yfirvinna yrði ódýrari.

„Þeir kæmu þá kannski í veg fyrir að fleiri væru ráðnir og þeir starfsmenn sem fyrir væru myndu þá vinna lengri vinnudag. Þetta er allt spurning um hvernig myndi spilast úr þessu.“