Áætlaðar vaxtagreiðslur ríkissjóðs frá árinu 2009 til 2014 nema 480 milljörðum króna. Í Morgunblaðinu í dag segir að fyrir þá upphæð mætti byggja sex nýja Landspítala. Þá er miðað við að bygging nýs Landspítala kosti 85 milljarða króna, eins og fram kemur í kostnaðaráætlun frá því í febrúar.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014 kemur fram að heildarskuldir ríkissjóðs eru um 1500 milljarðar króna. Stærstur hlutinn er vegna uppsafnaðs greiðsluhalla á ríkissjóði frá hruni, eða 400 milljarðar. Þá er 390 milljarða króna skuld vegna gjaldeyrisforðans, 300 milljarðar vegna skulda sem voru til komnar fyrir bankahrun, 250 milljarðar vegna endurfjármögnunar fjármálastofnana og 170 milljarðar vegna endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands.