*

sunnudagur, 16. febrúar 2020
Erlent 24. september 2013 13:32

Hægt að fá Angry Bird-bakpoka og iPad-a í Norður-Kóreu

Íbúar Norður-Kóreu eygðu von um betri tíð þegar Kim Jong Un settist í valdastól árið 2011. Sú von er úti, skrifar Barbara Demick.

Ritstjórn

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hefur gert það að eitt af forgangsverkefnum sínum að höfða til æskunnar, s.s. með því að endurbæta gamla skemmtigarðinn í Pyongyang og bætt við hann nýjum leiktækjum og „höfrungapolli“ auk þess að framleiða eigin iPad-tölvur með skólabókum, orðabókum og tölvuleikjum auk eigin útgáfu af Angry Birds-bakpokum.

Þessu til viðbótar er vinna hafin við Ryugyong-hótelið í Pyongyang, 105 hæða pýramída sem í tvo áratugi hafði gnæft tómur og hálfkláraður yfir borgina — og var orðinn að brandara hjá þjóðinni – og setja risaskjá við járnbrautarstöðina í Pyongyang í anda Times Square í New York. Þá eru konur í Norður-Kóreu farnar að ganga um á háhæluðum skóm, unglingsstrákar snúa hafnarboltahúfunum öfugt og litlar stelpur ganga um í bleikum fötum. Þá hafa litlir krakkar sést í fötum með Disney-merki.

Höfðu trú á nýjum leiðtoga

Á þessum nótum skrifar Barbara Demick, höfundur bókarinnar Engan þarf að öfunda sem fjallar um lífið í Norður-Kóreu. í nýjum eftirmála við bókina sem Demick ritar og birtur er í nýjasta hefti Þjóðmála fjallar hún um stöðu landsins eftir að Kim Jong-Un, sem er í kringum þrítugt, eftir að hann tók við af Kim Jong Il föður sínum látnum undir lok árs 2011.

Hún segir fólk hafa haft mikla trú á einræðisherranum unga fyrsta kastið. Svo mikil var ákefðin eftir fráfall Kim Jong Il að hún kom Demick í opna skjöldu. Fólk hafi einfaldlega trúað því að arftakinn myndi stunda annars konar stjórnmál en faðir sinn og landsmenn átt von á betri tíð og verið sama þótt nýi einræðisherrann sé feitur og með einkennilega klippingu.  

Demick segir tímasetninguna hafa verið Kim Jong Un í vil, hann hafi t.d. tekið við í öldu nýrra byggingarframkvæmda í tilefni af því að árið 2012 yrðu hundrað ár liðin frá fæðingu Kim Il Sung. Þá var verið að byggja þúsundir nýrra og nútímalegra fjölbýlishúsa með bogadregnar framhliðar í stíl Le Corbusier. Háskólastúdentar voru dregnir frá námi sem „sjálfboðaliðar“ og settir í byggingarvinnu.

Nú er hins vegar svo komið að íbúar Norður-Kóreu hafa glatað von sinni um betri tíð með nýjum einræðisherra. Demick skrifar:

„Engu skiptir hvernig þessi áætlun er seld; hún er andvana fædd. Endurreisn efnahagslífsins  og uppbygging kjarnorkuvopna geta ekki farið saman. Efnahagslífið í Norður-Kóreu getur ekki vaxið án erlendra fjárfestinga, tækniaðstoðar og aðstoðar frá Suður-Kóreu og Kína sem sætta sig ekki við að landið sé kjarnorkuveldi. “