Mjólkursamsalan og Kaupfélag Skagfirðinga hafa tekið höndum saman og stofnað fyrirtækið Heilsuprótein sem ætlað er að framleiða verðmætar afurðir úr mysu sem áður hefur verið fargað. Í fyrri áfanga verksmiðjunnar, sem vígð verður á Sauðárkróki nú um helgina, verður framleitt próteinduft úr mysu sem fellur til við ostagerð á Vestur-, Norður- og Austurlandi.

Í síðari áfanga verksmiðjunnar, sem áætlað er að komist í gagnið innan tveggja ára, verður framleitt etanól úr mjólkursykri ostamysunnar og einnig úr mysu sem fellur til við skyrgerð.

Framleiðslan markar tímamót í umhverfismálum og nýsköpun innan mjólkuriðnaðarins á Íslandi og á sama tíma er verið að auka verðmætasköpun með framleiðslu á vörum úr hráefni sem áður fór til spillis segir í fréttatilkynningu um verksmiðjuna.

Hægt að framleiða 300 tonn af próteini

Áætlað er að hægt verði að framleiða um 300 tonn af þurrkuðu próteindufti á ári, en mysupróteinduft er mikið notað í heilsu- og íþróttavörur og til matvælaframleiðslu. Jafnframt er áætlað að hægt verði að framleiða um 1,5 milljónir lítra af etanóli á ári en framleiðslan mun nýtast meðal annars í eldsneyti og vínanda.

„Samstarfið við KS hefur opnað margar dyr og teljum við að hér muni skapast mikil verðmæti með miklum möguleikum á ýmis konar framleiðsluvörum og útflutningi,“ segir Ari Edwald , forstjóri Mjólkursamsölunnar og stjórnarformaður Heilsupróteins. „Með þessu framtaki viljum við einnig leggja okkar á vogarskálarnar í umhverfismálum í okkar framleiðslu og á sama tíma nýta hráefni til fulls.“

Sigurjón R. Rafnsson , aðstoðarkaupfélagsstjóri KS finnst mikilvægt að félagið sé fyrirmynd, sérstaklega fyrirtækja í matvælaframleiðslu, í nýsköpun og umhverfismálum. „Sú nýsköpun sem hefur átt sér stað við nýtingu þessa hráefnis er það sem koma skal í landbúnaði og erum við hjá Kaupfélagi Skagfirðinga virkilega stolt af því að taka þátt í slíkri vinnu,“ segir Sigurjón.

Formleg opnun verksmiðju Heilsupróteins ehf. fer fram laugardaginn 21. október á Sauðárkróki þar sem kúabændum, stjórnmálamönnum og öðrum góðum gestum verður boðið til veislu. Meðal annars verður boðið upp á skyrdrykk sem inniheldur mysupróteinið sem og kokteila úr prufuframleiðslu á hinu nýja etanóli.