Streymisíðan Netflix hefur nú ákveðið að bjóða notendum sínum upp á þann valkost að hlaða niður kvikmyndum og sjónvarpsþáttum í símann sinn eða spjaldtölvu - án auka kostnaðar - til þess að geta horft á það sem hugurinn girnist, án þess að vera tengdur interneti.

Netflix býður nú upp á þennan valmöguleika til þess að auka samkeppnishæfi sitt gegn streymisíðum á borð við Amazon Prime, sem hefur sótt í sig veðrið að undanförnu.

Þessi nýjung verður í boði fyrir notendur Netflix um heim allan, en líklegt að hún nýtist hvað best í Afríku og Asíu, þar sem að nettengingar eru ekki eins góðar, eða algengar eins og í Evrópu og Norður-Ameríku. Af 86,7 milljón áskrifendum af Netflix þá eru 47,5 milljónir þeirra íbúar Bandaríkjanna. Því getur fyrirtækið vel sótt í sig veðrið á mörkuðum fyrir utan Bandaríkin.

Þó verða ekki allir þættir Netflix í boði til niðurhals. En meðal þátta sem hægt verður að hlaða niður eru hinir geysivinsælu Stranger Things, The Crown og Narcos.