Frá og með deginum í dag geta einstaklingar 21 árs og eldri keypt marijúana á löglegan hátt í Oregon fylki í Bandaríkjunum. Frá því í júlíbyrjun á þessu ári hefur verið löglegt að vera með marijúana í fórum sínum en hins vegar var engin lögleg leið til að kaupa efnið í fylkinu þar til nú.

Íbúar í Oregon kusu með lögleiðingu kannabisefna í nóvember 2014, en 56% þeirra sem kusu vildu lögleiðingu. Oregon bættist þar með í hóp með fylkjum á borð við Washington og Colorado þar sem marijúana er þegar löglegt. Nokkrar vel valdar verslanir fá nú að selja marijúana en sala verður síðan almennari undir lok næsta árs.

Samkvæmt nýju lögunum mega þeir sem eru 21 árs og eldri kaupa all að 7 grömm af marijúana eða fjórar óþroskaðar kannabisplöntur á þar til gerðum sölustöðum.