Á sunnudaginn komandi mætir landslið Íslands franska landsliðinu eftir 2-1 sigur íslenska liðsins á liði Englands. Enskir fjölmiðlar kalla ósigurinn algera niðurlægingu og versta tap frá upphafi. Sagði þjálfari enska liðsins, Roy Hodgson af sér strax eftir leikinn.

Hefndin er sæt

Landslið Englands og Íslands hafa einungis mæst tvisvar áður, í fyrra skiptið var það jafntefli 1-1 árið 1982 þar sem Arnór Guðjohnsen skoraði fyrir Íslands hönd. Seinasti leikurinn var svo árið 2004 þar sem Íslendingar töpuðu heilum 6-1 gegn Wayne Rooney og félögum í Manchester borg í Englandi. En nú var meira í húfi og er íslenska landsliðið komið í 8 liða úrslit í Evrópumeistaramótinu í Frakklandi og mætir næst heimamönnum.

Hægt verður að kaupa miða frá hádegi í dag á heimasíðu evrópska knattspyrnusambandsins, en stuðningsmenn geta tryggt sér sæti í röðinni 15 mínútum fyrr, eða 11:45.