Nýr og breyttur Já.is var opnaður í dag. Frá og með deginum í dag er hægt að versla vöru og þjónustu á vefnum, um er að ræða nýjung á Íslandi, viðskiptalausn sem felur það í sér að fyrirtæki geta nú boðið notendum Já.is vörur og þjónustu til kaups á vefsíðunni. Já hefur þróað þjónustuna í samstarfi við Valitor og hefur hún fengið heitið Já takk ! Smella og sækja Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Já.is.

Samhliða þessari nýjung hjá fyrirtækinu hefur vefsíðan verið uppfærð auk þess hefur leitartækni og framsetning niðurstaðna verið breytt talsvert.

Haft er eftir Margréti Gunnlaugsdóttur, vöru og viðskiptaþróunarstjóra Já, að fyrirtækið hafi séð mikinn vöxt í netverslun undanfrain ár. „Íslendingar eru heldur betur að taka við sér í þeim efnum. Það er ánægjulegt að geta boðið fyrirtækjum þann möguleika að selja vörur sínar og þjónustu á Já.is þar sem í hverri viku eru framkvæmdar yfir 800 þúsund leitir.  Fyrir okkur var það rökrétt viðbót við þá þjónustu sem Já veitir, að opna fyrir viðskipti og gera notendum kleift að klára kaupin á vefnum með einföldum hætti,“ er haft jafnframt haft eftir henni.

„Valitor er alþjóðlegt greiðslumiðlunarfyrirtæki sem hefur verið leiðandi í því að þróa ýmiskonar hugbúnaðarlausnir. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að vinna með Já að því að bjóða upp á slíka lausn á okkar heimamarkaði.  Við sjáum smella & sækja tæknina vera að ryðja sér til rúms samhliða aukinni vefverslun alþjóðlega og hlökkum til að vinna með fyrirtækjum að því að gera hana sem besta hérlendis.“  Segir Sigurður Ingvar Ámundason framkvæmdastjóri vöruþróunar og nýsköpunar hjá Valitor.