Fyrirtæki sem útvista fjarmálaferlum geta lækkað rekstrarkostnað um allt að þriðjung. Þetta segir Halldóra Katla Guðmundsdóttir, markaðs- og starfsmannastjóri Fjárvakurs. Fjárvakur hefur sérhæft sig í umsjón fjármálaferla frá árinu 2002. Fjárvakur sér um öll verkefni sem tilheyra fjármálasviði fyrirtækja, eins og færslu og afstemmingu bókhalds, rafrænt samþykktarferli reikninga, reikningagerð, innheimtu, greiðslu reikninga, endurskoðun, skattaskýrslugerð og aðra sérfræðiráðgjöf og svo launavinnslu.

Halldóra Katla segir að fyrirtæki geti útvistað öllum ferlum sem tilheyri þeirra fjármálasviði, hvort sem það eru valdir ferlar eða öll starfseminí heildina. „Mörg fyrirtæki taka kannski fyrsta skrefið með því að útvista launavinnslu. Það er þekktara heldur en að útvista bókhaldi og þá eru menn að prófa þjónustuna og byggja upp traust og koma svo með meira,“ segir Halldóra Katla.

Fjárvakur var byggt á grunni fjármáladeildar Flugleiða og dótturfyrirtækja þess, en fór svo að bjóða þjónustuna út fyrir samstæðuna í kringum 2007. „Við erum í dag að sinna allri Icelandair Group-samstæðunni og svo erum við með önnur fyrirtæki eins og til dæmis RÚV, Nóa Síríus, Slysavarnafélagið Landsbjörg og H.F. Verðbréf. Við erum með mörg fyrirtæki sem eru hluti af ferðaþjónustunni en við erum ekki að einskorða okkur við hana, heldur er fyrirtækjaflóran fjölbreytt,“ segir Halldóra Katla og bendir á að þau séu markvisst að þróa þjónustuna.

Meira um málið í Viðskiptabaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .