Hægt verður að sækja um niðurfellingu á hluta verðtryggðra íbúðalána frá 15. maí og fram til ágústloka, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Bjarni kynnti skuldaleiðréttinguna á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Fundinum lauk nú í hádeginu. Auk skuldaniðurfellingar er stefnt að því að hægt verði að nýta séreignasparnað til að lækka höfuðstól íbúðalána. Skuldir hvers heimilis geta lækkað um fjórar milljónir króna að hámarki. Skuldaniðurfellingin á að ná til um 70 þúsund heimili hér á landi.

Aðgerðirnar hafa tekið breytingum frá því þær voru fyrst kynntar. Nú verður fólki sem á ekki íbúð gert kleift að nýta séreignasparnað til að safna fyrir sinni fyrstu íbúð.

Bjarni sagði í samtali við VB.is að ríkisskattstjóri muni sjá framkvæmd málsins. Þá verði sett upp sérstakt vefsvæði þar sem fólk getur sótt um skuldaniðurfellingu.

Fram hefur komið að aðgerðin kosti um 150 milljarða króna og á að fjármagna hana með skattlagningu bankastofnana í slitameðferð. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagðist að fundi ríkisstjórnarinnar loknum ekki hafa áhyggjur af því að skattlagningin stangist á við stjórnarskrá.

Skuldafrumvarpið verður kynnt þingflokkum á morgun og betur á sérstökum blaðamannafundi eftir það. VB mun fjalla ítarlega um efnið í dag. Þar verða t.d. sýnt viðtöl við Bjarna og Sigmund Davíð Gunnlaugsson.