Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga, segir þjóðhagslegan ávinning af því að Landmælingafrumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra verði samþykkt.

„Frumvarpið mun hafa sams konar efnahagsleg áhrif og hefur verið í Danmörku,“ segir Magnús. Máli sínu til stuðnings vísar hann til skýrslu sem Deloitte vann fyrir Landmælingar Danmerkur, Geodatastyrelsen, fyrir ári síðan.

Í skýrslunni segir meðal annars: „Áætlað er að áhrifin af því að gera landupplýsingar gjaldfrjálsar þann 1. janúar 2013 muni hafa jákvæð áhrif á þjóðarbúskapinn, sem mun leiða af sér hagvöxt og aukna hagkvæmni í opinbera geiranum.“ Deloitte áætlar í skýrslunni að markaðsáhrif þess að gera nákvæmar landupplýsingar gjaldfrjálsar nemi 237 milljónum danskra króna og skapi 840 störf þar í landi.

Samkeyra landupplýsingar við tölvuleik

Landmælingar Danmerkur, Geodatastyrelsen, hafa samkeyrt gjaldfrjálsar landupplýsingar um Danmörku við tölvuleikinn Minecraft. „Þetta þýðir að öll Danmörk er nú aðgengileg í sýndarveruleika í kvarðanum 1:1 inni í Minecraft. Þú getur ferðast að vild um Danmörku, fundið hverfið þitt og byggt við það eða rifið það eins og maður getur gert í öllum heimum Minecraft,“ segir á vefsíðu stofnunarinnar.

Minecraft er tölvuleikur sem var hannaður af sænska hugbúnaðarfyrirtækinu Mojang, en Microsoft keypti félagið þann 14. október 2014 fyrir 2,5 milljarða Bandaríkjadala.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .