*

fimmtudagur, 3. desember 2020
Innlent 19. maí 2020 09:03

Hægt að sækja um endurgreiðslu

Nú er loks hægt að sækja um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðgerða á fólksbifreiðum.

Jóhann Óli Eiðsson
Hægt er að fá virðisaukaskatt vegna lagfæringar á bifreiðum endurgreiddan að fullu nái fjárhæð reiknings 25 þúsund krónum.
Haraldur Guðjónsson

Frá og með deginum í dag er hægt að sækja um endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna viðgerða á fólksbifreiðum. Heimildin gildir vegna reikninga sem dagsettir eru 1. mars síðastliðinn og síðar. Þetta kemur fram í frétt á vef Skattsins. 

Rétt er að taka fram að ekki allar bifreiðar falla undir lagaákvæðið sem um ræðir. Þannig nær það ekki til bifreiða sem nýttar eru í atvinnurekstri heldur aðeins til bifreiða í eigu einstaklinga sem nýttar eru í einkaþágu. Fjárhæð reikningsins verður síðan að ná að minnsta kosti 25 þúsund krónum. 

Þessu til viðbótar er einnig hægt að sækja um að fá virðisaukaskatt endurgreiddan að fullu af vinnu við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði. Sama viðmiðunardagsetning gildir vegna þess, þ.e. 1. mars. Hefðbundið viðhald á húsum fellur þar undir sem og bygging þeirra en einnig reikningar vegna heimilisaðstoðar og umhirðu húsa, á borð við ræstingu sameigna, garðvinnu og annarra þrifa. 

Aukin endurgreiðsla virðisaukaskatts var meðal þeirra aðgerða sem Alþingi samþykkti sem viðbrögð við efnahagsafleiðingum sem fylgdu í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Umrædd lög voru samþykkt á Alþingi þann 31. mars og nú, 19. maí, er lausnin komin á vef Skattsins. Sótt er um endurgreiðslu í gegnum þjónustusíðu Skattsins.