Ásdís Halla Bragadóttir er stjórnarformaður EVU, fyrirtækis í tvenns konar rekstri sem við fyrstu sýn gætu virst alls ólíkir hver öðrum. EVA er ef til vill þekktast fyrir að reka Sinnum heimaþjónustu auk þess að eiga 15% hlut í Klíníkinni á móti 85% hlut lækna og hjúkrunarfræðinga. Klíníkin hefur nýlega opnað læknamiðstöð í kjallara Ármúla 9 þar sem Broadway var áður til húsa. Í sama húsi rekur EVA hins vegar Hótel Ísland, og í Ármúla 9 á sér því stað athyglisverð blanda hótelreksturs og heilbrigðisþjónustu.

Rekstur EVU er ekki óumdeildur. Ásdís segir umræðuna um fyrirtækið stundum vera sára og ómálefnalega, og jafnvel andstyggilega.

Eitt af því sem umræðan hefur snúist um er hagnaður hjá einkafyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu. Eru fleiri siðferðileg álitamál í rekstri heilbrigðisfyrirtækja en annarra fyrirtækja?

„Sumir einstaklingar eru beinlínis á móti öllum hagnaði en í huga sumra er siðferðilegur munur á hagnaði fyrirtækja eftir því í hvaða geira þau eru. Þá getur maður spurt sig: Er fallegt að hagnast af hungri? Er fallegt að hagnast af því að einhverjir þurfa að fara út í matvörubúð til að kaupa sér mat? Er fallegt að fasteignafélög hagnist af því að veita fólki þak yfir höfuðið? Er fallegt að smiður hagnist af því að smíða hús og selja einstaklingi húsaskjól fyrir fjölskyldu sína. Er fallegt að hagnast af unglingum sem verða svo mikilir fíklar í tölvuleiki að þeir setja allan sinn pening í þá? Eða er fallegt að hagnast af sölu á sykri sem er gríðarleg heilsufarsógn? Eða jafnvel af sölu áfengis?

Það er hægt að setja allan hagnað í siðferðilegt samhengi og segja: þetta er ljótt. Alveg sama með heilbrigðisþjónustuna, þá geturðu sagt að það sé ljótt að einhver hagnist af því að lækna fólk. Ég veit hins vegar ekki til þess að það séu til fyrirtæki á Íslandi sem hafa verið að hagnast verulega á því að veita heilbrigðisþjónustu og í raun eru sjálfsagt mun fleiri fyrirtæki sem hafa hagnast á því að rústa heilsu fólks frekar en að bjarga henni.“

Ítarlegt viðtal við Ásdísi er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .