Já kynnti í gær formlega nýtt alíslenskt smáforrit fyrir snjallsíma sem kallast Já í símann. Eftir að forritið hefur verið sett upp á snjallsíma beintengir það hann við Símaskrána, þannig að þegar hringt er í símann er númerinu samstundis flett upp og nafn þess sem hringir birt á skjánum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Já en með þessu geta snjallsímaeigendur alltaf vitað hverjir eru að hringja í þá og tekið ákvörðun um hvernig skuli afgreiða símtalið.

Notendaprófanir Já í símann fóru fram undir lok síðasta árs og tóku fjölmargir notendur þátt í þeim. Þótt forritið sé kynnt formlega í fyrsta sinn í dag hefur það verið fáanlegt á já.is síðustu vikur og eru virkir notendur nú þegar orðnir á þriðja þúsund.
Fram kemur að Já í símann er eitt af fyrstu smáforritunum fyrir farsíma sem alfarið er hannað á Íslandi.

„Eftir því sem tækninni fleygir fram í þróun farsíma hafa slík smáforrit orðið sífellt vinsælli og er hugbúnaðarþróun fyrir snjallsíma einn helsti vaxtarbroddurinn í upplýsingatækni í dag,“ segir í tilkynningunni.

„Það var forritunarteymi Já sem þróaði Já í símann, en það sló í gegn á hátíð Samtaka vefiðnaðarins (SVEF) á síðasta ári. Þar hlutu forritarar Já verðlaun fyrir besta þjónustu-og upplýsingavefinn (já.is), besta afþreyingar- og fréttavefinn (skjárinn.is), besta hand-smátækjavefinn (m.ja.is) og besta íslenska vefinn (ja.is).“

Þá segir jafnframt:

„Auk þess að birta upplýsingar um þá sem hringja í símann býr forritið yfir ýmsum öðrum nytsamlegum eiginleikum. Sem dæmi má nefna að Já í símann getur vistað beint í tengiliðaskrá nöfn og aðrar upplýsingar um þá sem hringt hafa í símann, auk þess sem með forritinu er einfaldara en áður að leita að upplýsingum í gagnagrunni Símaskrárinnar. Sem stendur virkar Já í símann fyrir snjallsíma með Symbian og Android stýrikerfi, sem er stór hluti þeirra nýju snjallsíma sem eru á markaðnum í dag.“

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Já segist vera í skýjunum með viðtökurnar sem félagið hafi fengið við Já í símann.

„Notendum fjölgar ört og greinilegt að kostir forritsins spyrjast hratt út, enda er það afrakstur frábærrar vinnu forritarateymisins okkar. Þróun hugbúnaðar fyrir farsíma er hröð um þessar mundir og það er einstaklega spennandi fyrir okkur hjá Já að taka þátt í nýsköpun á þessu sviði. Þetta hefur verið mjög gefandi verkefni fyrir okkur öll og ég get fullyrt að við erum bara rétt að byrja,“ segir Sigríður Margrét í tilkynningunni.