Allgott samræmi virðist komið að nýju á milli þróunar íbúðaverðs og kaupmáttar, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í frétt greiningar Íslandsbanka. Verulega hefur hægt á verðhækkun fjölbýla undanfarið ár en meiri gangur virðist enn í sérbýlum hvað verðhækkun varðar.

Þjóðskrá Íslands birti nýverið vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir júní. Vísitalan hækkaði um 0,8% frá fyrri mánuði. Sérbýli hækkaði í verði um 1,7% milli mánaða en fjölbýli um 0,6%. Er júní annar mánuðurinn í röð þar sem sérbýli hækkar mun meira en fjölbýli á þennan mælikvarða.

Tólf mánaða taktur vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæði hefur tekið mikla sveiflu undanfarin misseri eftir tiltölulega stöðuga hækkun árin 2012-2015. Á framangreindu tímabili hækkaði vísitalan um tæplega 8% á ári að jafnaði. Á vordögum náði árstakturinn náði hámarki í 23,5% fyrir rúmu ári síðan. Frá miðju ári 2017 hefur hins vegar dregið jafnt og þétt úr árstakti hækkunar íbúðaverðs. Í júní var árstakturinn 5,2% sem er næstminnsta árshækkun í fimm ár.

Talsverður munur er hins vegar á hækkunartakti fjölbýla og sérbýla á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana. Í júní hafði verð sérbýla hækkað um 9,3% undangengna 12 mánuði, en verð fjölbýla hækkað um 3,7% á sama tíma.