Vöxtur í kortaveltu Íslendinga í júlí var hóflegur, að sögn Greiningar Íslandsbanka. Bendir það ásamt öðru til þess að einkaneysla sé að vaxa hægt þessa dagana. Myndarlegur vöxtur var hins vegar í kortaveltu útlendinga hér á landi, og var afgangur af svonefndum kortaveltujöfnuði meiri en nokkru sinni fyrr.

Kortavelta einstaklinga innanlands jókst um 2,5% að raunvirði í júlí síðastliðnum frá sama tíma í fyrra, að því er fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka. Meiri vöxtur var í kortaveltu Íslendinga erlendis í mánuðinum, eða upp á 5,0% að raunvirði á milli ára. Greining Íslandsbanka segir að sú aukning komi nokkuð á óvart þar sem hún stingi í stúf við tölur Ferðamálastofu um brottfarir Íslendinga um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í mánuðinum, en samkvæmt þeim fækkaði brottförum Íslendinga um 4,8% á milli ára. Samanlagt jókst því kortavelta einstaklinga um rúmlega 2,7% að raunvirði í júlí á milli ára.

Greining Íslandsbanka segir að þarna sé um að ræða viðsnúning frá þróuninni sem var í júní, en þá hafði kortavelta einstaklinga dregist saman um 0,9% að raungildi á milli ára. Vert sé þó að taka fram að Greining Íslandsbanka, líkt og Seðlabankinn, undanskilji úttektir með debetkortum úr bönkum og hraðbönkum úr framangreindum tölum. Séu slíkar úttektir teknar með í reikninginn mælist kortaveltuvöxturinn talsvert minni í júlí. Það sem af er ári hafi þróunin verið með nokkuð mismunandi hætti þar sem kortavelta hafi ýmist aukist milli ára eða skroppið saman í einstökum mánuðum.