*

þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Innlent 30. október 2019 08:20

Hægur vöxtur en stöðugur

Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,4% samdrætti á árinu sem er að líða. Hóflegur bati verði hins vegar á næstu árum.

Ritstjórn
Spáin gerir ráð fyrir lágum en sjálfbærum vexti einkaneyslu.
Aðsend mynd

Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,4% samdrætti á árinu sem er að líða. Hóflegur bati verði hins vegar á næstu árum með um 2% hagvexti á næsta ári og heldur meiri vexti næstu tvö árin eftir það. Þetta kemur fram í nýbirtri hagspá Hagfræðideildarinnar.

Í spánni kemur fram að hagvöxtur næstu ára verði studdur af lágum en sjálfbærum vexti einkaneyslu, auknum fjárfestingum hins opinbera, aukningu í útflutningi og viðsnúningi í atvinnuvegafjárfestingu þegar fram í sækir. Gert er ráð fyrir því að verðbólga verði nærri verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands og vextir lágir.

„Hagspáin endurspeglar að töluverð óvissa er um þróun hagvaxtar í heiminum næstu misseri sem birtist nú þegar í hægari vexti alþjóðaviðskipta og iðnaðarframleiðslu. Frekari stigmögnun þeirrar þróunar, umfram það sem nú er gert ráð fyrir, kann að hafa töluverð neikvæð áhrif hér á landi, m.a. á ferðaþjónustuna, sjávarútveg og orkufrekan iðnað,“ segir í spánni.

Samkvæmt spánni mun atvinnuvegafjárfesting dragast saman um rúmlega fimmtung á árinu en ef það gengur eftir er um að ræða mesta samdrátt á sviðinu frá 2009. Samdráttur í heildarfjárfestingum, sem jafnframt væri mesti samdráttur frá 2009, mun nema 9,5%.

„Hagfræðideildin reiknar með að raunverð íbúða hækki um u.þ.b. 1% á ári næstu ár. Sé tekið mið af áætlaðri verðbólgu er gert ráð fyrir að nafnverðshækkun íbúðaverðs verði u.þ.b. 4% að jafnaði til ársloka 2022. Hækkun íbúðaverðs verður þannig lítil í sögulegu samhengi og helst drifin áfram af kaupmáttaraukningu launa, hagstæðari lánakjörum og aukinni kaupgetu fólks í takt við aukningu ráðstöfunartekna í kjölfar skattkerfisbreytinga og aðgerða til þess að liðka fyrir húsnæðiskaupum,“ segir í spánni.

Þá spáir hagfræðideildin því að stýrivextir Seðlabankans muni lækka enn frekar áður en árið er liðið og eru 25 punktar nefndir í því samhengi. Stýrivextir verði því 3% í ársloks. Gangi spá bankans eftir telur deildin líklegt að í byrjun 2022 verði talið tímabært að hefja hækkun vaxta lítillega á ný.