Þó að góður vöxtur hafi verið í útflutningstekjum á milli júlí í ár og sama mánaðar í fyrra hefur vöxtur útflutnings á árinu valdið vonbrigðum að mati Greiningar Íslandsbanka. Á föstu gengi var 8,8% meiri útflutningur á fyrstu sjö mánuðum þessa árs en á sama tímabili í fyrra. Mestur hluti þeirrar aukningar er tilkomin vegna verðbreytinga en í magni hefur útflutningur vaxið hægt segir í Morgunkornum Íslandsbanka. Sé þetta á sama tíma og raungengið sé mjög lágt sögulega séð og samkeppnisstaða útflutningsatvinnuveganna þannig góð. Má vera að hér skorti fjármagn til fjárfestinga og að þau tækifæri sem lágt raungengi býður séu ekki nýtt vegna bæði fjárhagslegrar stöðu fyrirtækja og þess umhverfis sem þau búa við. Dregur þetta úr hversu hratt hagkerfið er að ná sér eftir niðursveiflu síðustu ára. Ef skuldakrísan í hagkerfunum umhverfis okkur dregst á langinn og það hægi á hagvexti þar getur það dregið enn frekar úr vexti útflutnings héðan næstu misserin.