Ríkisstjórnin tilkynnti í kvöld fyrirhugaðar aðgerðir sem eiga að draga úr hallarekstri ríkissjóðs ásamt því að vinna gegn þenslu og verðbólgu í hagkerfinu, að því er kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Ríkisstjórnin samþykkti í gær að fjármálaráðherra skyldi leggja tillögurnar fyrir fjárlaganefnd.

Meðal aðgerða sem boðaðar eru má nefna hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi, innleiðing breytts fyrirkomulags gjaldtöku á bíla ásamt varanlegri lækkun ferðakostnaðar hjá ríkinu. Þá stendur til að lækka framlög til stjórnmálasamtaka.

Ríkisstjórnin kynnti einnig í byrjun maí hækkun almannatrygginga og húsnæðisbóta ásamt sérstökum barnabótaauka sem eiga að draga úr áhrifum vaxandi verðbólgu á viðkvæmustu hópa samfélagsins. Í tilkynningunni sem send var út í kvöld segir að umfang aðgerðanna sem lagðar eru til nemi um 0,7% af vergri landsframleiðslu eða sem samsvarar 26 milljörðum króna.

Bregðast við tekjutapi af bifreiðum

Ríkisstjórnin ræðir sérstaklega um fyrirhugaða innleiðingu gjaldtöku vegna umferðar og eldsneytis. Tekjur af núverandi gjöldum hafa dregist verulega saman á síðustu árum, ekki síst vegna fjölgun vistvænna bifreiða en á síðustu tíu árum hafa verið veittir 27,5 milljarðar í skattaívilnanir vegna þeirra. Auk þess bera slíkir bílar í fæstum tilvikum vörugjald við innflutning. Þá greiða eigendur rafbíla engin vörugjöld af orkunotkun.

„Samhliða miklum árangri í orkuskiptum er því unnið að innleiðingu á einfaldara og skilvirkara tekjuöflunarkerfi, sem samræmist þörf á áframhaldandi útgjöldum við nýframkvæmdir, viðhald og rekstur vegakerfisins.“

Einnig stendur til að breyta gjaldtöku í fríhöfninni með „nokkru minni afslætti á afengisgjaldi og tóbaksgjaldi en nú er“.

Fyrirhugað er að frá og með árinu 2024 verði ráðist í tekjuöflun af ferðamönnum í samráði við ferðaþjónustuna samhliða áframhaldandi innviðauppbyggingu og álagsstýringu í tengslum við fjölgun ferðamanna. Einnig verði fyrirkomulag og umfang verðbætagjalds vegna sjókvíeldis endurskoðað og varaflugvallagjald lagt á.

Tímabundin aðhaldskrafa

Hvað varðar aðgerðir á útgjaldahliðinni þá leggur ríkisstjórnin til að lækkun ferðakostnaðar hjá ríkinu verði gerð varanleg en um er að ræða 640 milljóna lækkun sem að óbreyttu hefði gengið til baka. Einnig á að lækka á framlög til stjórnmálasamtaka.

Ríkisstjórnin hyggst leggja tímabundna 2% aðhaldskörfu á málefnasvið með nokkrum undantekningum. Ekkert aðhaldsmarkmið verði sett fyrir heilbrigðis- og öldrunarstofnanir, krafan á framhalds- og háskóla verður 0,5% og engin krafa um aðhald verður sett á bótakerfi almannatrygginga og atvinnuleysis, sjúkratryggingar og dómstóla.

Að lokum segir að fjárfestingaráform verði endurskoðuð „einkum til að endurspegla betur mat á þörf fyrir viðbótar fjárveitingar“. Ríkisstjórnin segir að tiltekin fjárfestingarverkefni hafi að undanförnu dregist frá því sem áætlanir gáfu til kynna m.a. þar sem framkvæmdageta hafi reynst minni. Gert sé ráð fyrir að hliðra verkáföngum aftur um eitt ár í einhverjum tilfellum þar sem færi gefst á að afla hagstæðari tilboða síðar „í ljósi stöðunnar á byggingamarkaði“.