Skeljungur hefur sent frá sér afkomuviðvörun því það stefnir í hærri EBITDA hjá félaginu en afkomuspá gerði ráð fyrir. Hefur félagið hækkað bæði efri og neðri mörk spár sinnar um 200 milljónir, en þar af er helmingurinn vegna einskiptishagnaðar.

Áður birt afkomuspá fyrir árið 2018 gerði ráð fyrir að EBITDA yrði á bilinu 2.600-2.800 milljónir króna og fjárfestingar yrðu á bilinu 750-850 milljónir. Miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir hefur  EBITDA spá ársins 2018 verið hækkuð í 2.800-3.000 milljónir króna en að áætlun varðandi fjárfestingar haldist óbreyttar.

Við vinnslu á uppgjöri fyrsta ársfjórðungs og uppfærðri áætlanagerð fyrir árið 2018 kom í ljós að horfur eru á að afkoma ársins í heild verði betri en áætlanir gerðu ráð fyrir segir í fréttatilkynningu frá félaginu í kauphöll Nasdaq Iceland. Félagið setur þó fyrirvara við áætluðum tölum.

Helsta ástæða fyrir betri afkomu á fyrsta ársfjórðungi en gert hafði verið ráð fyrir helgast af betri afkomu af eldsneytissölu á Íslandi, í Færeyjum og af alþjóðasölu, auk einskiptishagnaðar upp á 103 milljónir króna vegna uppfærðs eignaverðs á einni af eignum félagsins. Félagið mun birta uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2018 eftir lokun markaða þriðjudaginn 8. maí næstkomandi.