Gert er ráð fyrir því að fjárveitingar ríkisins til Ríkisútvarpsins muni nema 3.514 milljónum króna á næsta ári. Þetta er 319 milljóna króna hækkun á milli ára en þau námu 3.195 milljónum króna á þessu ári. Hækkunin nemur 10% á milli ára. Fram kemur í fjárlögum fyrir næsta ár sem kynnt voru í dag að ekki sé gert ráð fyrir hagræðingarkröfu á RÚV líkt og á við um flestar aðrar stofnanir mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Þá segir í fjárlögunum að útvarpsgjald verði lækkað um 250 milljónir króna. Það skili sér í lægri álögum á heimili og fyrirtæki árið 2015 og um sömu upphæð árið 2016. Tekjur ríkissjóðs lækka af þeim sökum um 500 milljónir króna.

Í fjárlögum segir orðrétt:

„Samkvæmt 1. tölul. 14. gr. laga nr. 23/2013, sem samþykkt voru á á síðastliðnu vorþingi, verða tekjur af sérstöku gjaldi sem leggja skal skal á samhliða álagningu opinberra gjalda á tekjuskattskylda einstaklinga og lögaðila markaðar til Ríkisútvarpsins frá og með 1. janúar 2014 í stað þess að tekjurnar renni í ríkissjóð og að greitt sé framlag til starfseminnar samkvæmt þjónustusamningi um útvarp í almannaþágu. Áætlað er að á næsta ári verði álagðar tekjur af þessu sérstaka gjaldi 4.210 m. kr. en að þar af innheimtist 3.910 m. kr., sem er 715 m.kr. hærra en framlag ríkissjóðs til fyrirtækisins í gildandi fjárlögum. Sem liður í ráðstöfunum til að falla frá nýjum og óhöfnum útgjöldum er í frumvarpinu gert ráð fyrir að gildistöku fyrrgreindra ákvæða laganna verði frestað til 1. janúar 2016 en að eftir það verði útvarpsgjaldið markaður tekjurstofn til félagsins.“