Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra hefur staðfest breytingu á reglugerð um húsnæðisbætur sem hækkar þau viðmið tekna sem leigjendur geta haft áður en þær skerða rétt þeirra til húsnæðisbóta. Reglugerðin sem Þorsteinn staðfesti er afturvirk og gildir frá gildistöku laga um húsnæðisbætur, sem tók gildi um áramótin. Þetta kemur fram í frétt á vef velferðarráðuneytisins.

„Með reglugerðarbreytingunni er brugðist við misræmi sem orðið hefur á milli framfærsluviðmiðs almannatrygginga miðað við þann sem býr einn og frítekjumarka húsnæðisbótakerfisins frá því að lög um húsnæðisbætur voru samþykkt á Alþingi síðastliðið sumar. Þannig verður tryggt að lífeyrisþegi almannatrygginga sem býr einn og hefur ekki aðrar tekjur sér til framfærslu eigi rétt á óskertum húsnæðisbótum, líkt og ráð var fyrir gert þegar lögin voru samþykkt. Misræmi þetta skapaðist við 13,5% hækkun framfærsluviðmiðsins um síðustu áramót en lög um húsnæðisbætur voru samþykkt á Alþingi 2. júní síðastliðinn og miðuðust frítekjumörk laganna fyrir þann sem býr einn þá við framfærsluviðmið almannatrygginga,“ segir í fréttinni.

Með breytingunni verður frítekjumark þess sem býr einn tæplega 3,4 milljónir en áður var það 3,1 milljón, ef tveir eru í heimili verður frítekjumarkið 4,46 milljónir og var það áður 4,1 milljón. Ef að þrír eru í heimili verður frítekjumarkðir ríflega 5,2 milljónir en var áður 4,8 milljónir. Ef að heimilismenn eru fjórir eða fleiri verður frítekjumarkið 5,65 milljónir en var áður 5,2 milljónir.

Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna þessara breytinga nemi 214 milljón krónur á þessu ári miðað við núverandi fjölda samþykktra umsókna um húsnæðisbætur.