Stjórn Ölmu íbúðafélags samþykkti á stjórnarfundi í dag að kaupa allt hlutafé félaganna Brimgarða ehf. og 14. júní ehf. af Langasjó. Jafnframt var samþykkt að hækka hlutafé Ölmu um tvö milljarða króna að raunvirði sem greitt verður fyrir með reiðufé, að því er kemur fram í tilkynningu félagsins.

Eignarhaldsfélagið Langsjór keypti Ölmu fyrir 11 milljarða króna í lok febrúar síðastliðnum . Samkeppniseftirlitið heimilaði kaupin fyrir rúmum tveimur vikum.

Sjá einnig: 155 milljóna tap hjá Ölmu íbúðafélag i

Kaupverð hlutafjár Brimgarða og 14. júní jafngildir eigin fé félaganna á afhendingardegi sem áætlað er að verði á bilinu 10,5-11,5 milljarðar króna. Eigið fé 14. júní var í lok síðasta árs um 485 milljónir króna. Eignir félagsins, aðallega atvinnuhúsnæði, voru um 922 milljónir króna.

Eigið fé Brimgarða var í árslok 2020 um 10 milljarðar króna og heildareignir félagsins, sem samanstanda að stærum hlut af skráðum verðbréfum og atvinnuhúsnæði, námu 17,6 milljörðum. Brimgarðar er stærsti hluthafi fasteignafélagsins Eikar með 14,5% hlut en félagið á einnig 1,9% eignarhlut í Reitum.

Alma íbúðafélag tilkynnti einnig í dag um að Ingólfur Árni Gunnarsson yrði ráðinn framkvæmdastjóri Ölmu tímabundið vegna fæðingarorlofs Maríu Bjarkar Einarsdóttur, núverandi framkvæmdastjóra.