Fasteignafélagið Reginn hyggst auka hlutafé til að standa við 535 milljóna króna arðgreiðslu sem var samþykkt á aðalfundi þann 11. mars síðastliðinn. Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, sagði á fjárfestakynningu í morgun að hlutafjáraukningin yrði svipuð arðgreiðslunni að umfangi.

Stjórn Regins tók ákvörðun tæpum tveimur vikum eftir aðalfundinn um að fresta arðgreiðsludegi, þó eigi síðar en 11. september næstkomandi. Stjórnin mun boða hlutahafafund á næstunni þar sem lögð verður fram tillaga um hækkun hlutafjár til að „lágmarka áhrif arðgreiðslunnar á eiginfjár- og lausafjárstöðu félagsins“, að því er kemur fram í uppgjöri fyrir annan ársfjórðung.

Sjá einnig: Reginn tapar 209 milljónum

Helgi segir að það hafi verið mat lögfræðinga að félagið væri bundið ákvörðun aðalfundarins, sem haldinn var rétt áður en áhrif af Covid komu í ljós, og félagið gæti orðið skaðabótaskylt ef arðgreiðslunni yrði snúið við. Hann nefnir í þessu samhengi einstaklinga sem hafa átt viðskipti með hlutabréf félagsins rétt fyrir aðalfundinn.

„Gera má ráð fyrir að þeir hluthafar sem fá þennan arð greiddan noti hann til að auka aftur hlutafé í félaginu. Með þessum hætti er ekki verið að rýra getu félagsins til að takast á við þau verkefni sem eru framundan,“ segir Helgi og bætir við að hluthafar fái nánari upplýsingar í lok næstu viku.