Lánshæfismatsfyrirtækið Reitun hefur hækkað lánshæfismat Kópavogsbæjar úr B í B+ með stöðugum horfum. Í rökstuðningi segir að Kópavogsbær hafi unnið vel úr afleiðingum efnahagshrunsins, rekstrarframlegð batnað verulega og sé veltufé frá rekstri sterkt.

Í tilkynningu frá bænum þar sem greint er frá málinu segir að skuldir Kópavogsbæjar lækki hratt og að endurfjármögnun lána hafi gengið afar vel. Gengisáhætta sveitarfélagsins verði nánast horfin eftir þetta ár þar sem tekist hafi að endurfjármagna lán frá Dexia-banka í evrum.

„Afborganir lána á næstu árum eru mun lægri en í ár og ætti að vera hægt að fjármagna þær að stórum hluta með veltufé frá rekstri,“ segir í niðurstöðunum frá Reitun.

Ná hugsanlega 150% markinu árið 2017

Á hinn bóginn er minnt á að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna hafi fyrir nokkrum misserum gert athugasemdir við of hátt skuldahlutfall Kópavogsbæjar. Reitun segir að bærinn hafi tekið tillit til ábendinga og tilmæla eftirlitsnefndarinnar og liggi fyrir áætlun um að uppfylla kröfur um 150% skuldahlutfall árið 2018. Miðað við stöðuna nú sé útlit fyrir að það náist hugsanlega ári fyrr.