ALM Verðbréf, sem undanfarin ár hefur lánshæfismetið skuldabréf Lánasjóðs sveitarfélaga fyrir fjárfesta, hefur hækkað lánshæfi sjóðsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Sjóðurinn lánar til sveitarfélaga og fyrirtækja á vegum þeirra og hefur sjóðurinn veð í tekjum sveitarfélaga sem það lánar til. Fram kemur í tilkynningunni að meginástæðan fyrir hækkun lánshæfisins sé dómur sem nýverið féll í Hæstarétti þar sem sjóðurinn var sýknaður af kröfu lántaka.

„Þessi dómur hefur mikla þýðingu varðandi frekari tapsáhættu af gengislánum sjóðsins, en stór hluti af erlendum lánum sjóðsins eru sambærileg.  Óvissa vegna erlendra lána hefur því minnkað töluvert og hefur lánshæfið því hækkað hjá félaginu, og er nú A+,“ segir í tilkynningunni.