Bandaríska stórverslunarkeðjan Target hagnaðist um tæpa sjö milljarða Bandaríkjadali á árinu 2021, eða um 900 milljarða króna. Hagnaður félagsins jókst þannig um 60% á milli ára, en þetta kemur fram í grein Wall Street Journal.

Tekjur Target námu 106 milljörðum dala á árinu, 13% aukning á milli ára. Félagið hefur notið góðs af aukinni eftirspurn eftir heimsendingu á mat og öðrum vörum. Mikil tekjuaukning félagsins á milli ára vegur upp á móti hærri rekstrarkostnaði.

Tekjur Target námu tæpum 31 milljörðum dala á fjórða ársfjórðungi, 9,4% aukning á milli ára. Hagnaður félagsins á fjórðungnum nam 1,54 milljörðum dala, um 12% aukning frá sama ársfjórðungi 2020.

Target hefur gefið það út að byrjunarlaun hjá stórum hluta starfsfólks hjá félaginu muni hækka talsvert á næstunni. Þannig munu byrjunarlaun hækka úr 15 dölum á klukkutímann upp í 24 dali á klukkutímann hjá umræddu starfsfólki. Þó muni lágmarkslaun áfram vera 15 dalir á klukkutímann. Target áætlar að launakostnaður félagsins muni hækka um 300 milljónir dala við þessar aðgerðir.