Laun stjórnarmanna í Landsbréfum hafa verið hækkuð. Þetta var gert á hluthafafundi félagsins 18. júní að ósk Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans. Laun stjórnarmanna eru nú 180 þúsund krónur en stjórnarformaður félagsins fær tvöfalda þá upphæð. Tillagan um launahækkun var samþykkt samhljóða samkvæmt fundargerð hluthafafundarins.

Fjölda stjórnarmanna var fjölgað úr þremur í fimm í maí síðastliðnum eftir að eignasafn Horns hf. var fært til Landsbréfa. Horn var dótturfélag bankans en með þessu var fallið frá skráningu Horns á markað. Landsbankinn á 99,9% hlutafjár í Landsbréfum en  ríkissjóður er stærsti eigandi Landsbankans.