„Það er alveg ljóst að vextir á Íslandi í dag eru miklu lægri en þeir þyrftu að vera ef við værum ekki með höft. Það gengur ekki þegar höftum verður aflétt. Vextir munu hækka þegar það gerist,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Már og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri sitja nú fyrir svörum í Seðlabankanum þar sem þeir svara fyrir um vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar bankans sem kynnt var í morgun. Nefndin ákvað að hækka stýrivexti um 25 punkta og fóru stýrivextir við það í 5%.

Már sagði Seðlabankann og stjórnvöld vinna að því að undirbúa jarðveginn fyrir afnám gjaldeyrishafta án þess að taka of mikla áhættu. Á meðal aðgerðanna er útboðsferli bankans, fjármögnun ríkissjóðs og aflétting stöðu aflandskróna.

Már sagði jafnframt nauðsynlegt að halda áfram að draga úr slaka peningastefnunnar. Hann hafi verið töluverður fyrir vaxtaákvörðunina. Hann muni verða töluverður áfram.

„Það er hins vegar ljóst, að ef verðbólguhorfur batna ekki á næstunni þá þarf að koma til frekari hækkun nafnvaxta svo taumhald peningastefnunnar verði hæfilegt. Mikið þarf að gerast til að það verði ekki raunin í maí,“ sagði hann.