Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs námu 625 milljörðum króna í lok árs 2016, sem þýðir að þær hækkuðu um 116,6 milljarða króna á milli ára eða um 22,9%.  Sem hlutfall af landsframleiðslu hækkuðu skuldbindingarnar úr 23,1% í 26% á milli áranna 2015 og 2016. Þessar tölur koma fram í Fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022. Áætlunin var kynnt á fundi, sem Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra hélt fyrir rúmlega viku síðan.

Til þess að setja þessa tæplega 117 milljarða aukningu lífeyrisskuldbindinga á einu ári í eitthvað samhengi má geta þess að áætlaður kostnaður við byggingu nýs Landspítala er  53,6 milljarðar króna.

Lífeyrisskuldbindingar ríkisins hafa aukist mikið síðustu ár. Sem dæmi má nefna að árið 2012 námu þær 388,5 milljörðum króna. Á fjórum árum hafa þær því aukist um 236,5 milljarða eða 60,9%.

Launahækkanir vega þungt

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir hækkun lífeyrisskuldbindinga undanfarin ár megi að mestu rekja til launahækkana hjá ríkinu en á árunum 2014 og 2015 voru gerðir fjölmargir nýir kjarasamningar. Í fjármáláætluninni er bent á að breyttar tryggingafræðilega forsendur hafi einnig haft áhrif.  „Þá var gengið á eignir sjóðanna á árinu til þess að greiða lífeyri og ávöxtun reyndist slök vegna þróunar á mörkuðum og styrkingar krónunnar," segir í áætluninni.

Langstærsti hlutinn af lífeyrisskuldbindingum ríkisins er vegna B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR). Af 625 milljarða króna skuldbindingum námu lífeyrisskuldbindingar gagnvart B-deild LSR um 558 milljörðum. Skuldbindingar gagnvart Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga (LH) námu tæplega 68 milljörðum.

Það er ýmislegt sem skilur opinbera lífeyrissjóði, eins og LSR, frá þeim almennu. Það er ekki bara þessi bakábyrgð frá ríkinu heldur má ekki skerða réttindi sjóðfélaga því þau eru bundin í lög og óháð ávöxtun og eignum sjóðanna. Á hrunárunum voru lífeyrisréttindi margra almennra lífeyrissjóða skert til þess að þeir gætu staðið undir lífeyrisgreiðslum.

„Algjört lágmark"

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017 kemur fram að ríkissjóður muni, frá og með árinu 2017, greiða 5 milljarða króna inn á lífeyrisskuldbindingar.

„Verði af sölu Íslandsbanka á næstu árum verður sú fjárhæð endurmetin til hækkunar. Með sölu á öllu hlutafé bankans gæfist svigrúm til allt að 100 milljarða króna innágreiðslu inn á skuldbindingarnar," segir í fjárlögunum.

Benedikt segir að mjög brýnt sé að bregðast við þessum auknu skuldbindingum. Hann segir að þessi 5 milljarða árlega greiðsla sé „algjört lágmark". Þó sala Íslandsbanka sé nefnd í tengslum við lífeyrisskuldbindingarnar þá segir hann ákveðna óvissu ríkja um hana. Það mál sé „mjög pólitískt".

Lífeyrisskuldbindingar
Lífeyrisskuldbindingar

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .