*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 20. apríl 2015 08:44

Hækka um allt að 50%

Markmið nýs frumvarps til laga um húsnæðisbætur er að jafna sem mest húsaleigubætur og vaxtabætur.

Trausti Hafliðason
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Tvö af fjórum húsnæðismálafrumvörpum Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, voru afgreidd úr ríkisstjórn fyrir páska og lögð fyrir Alþingi. Þau tvö sem standa eftir eru föst inni í fjármálaráðuneytinu, þar sem unnið er að kostnaðarmati. Þar af leiðandi liggur ekki fyrir í dag hvað frumvörpin muni kosta ríkissjóð en talið er að kostnaðurinn hlaupi á milljörðum króna.

„Það voru miklar annir í fjármálaráðuneytinu fyrir páska og þar af leiðandi gafst ekki tími til að fara í kostnaðarmat á þessum tveimur frumvörpum,“ segir Eygló í samtali við Viðskiptablaðið. „Mér skilst aftur á móti að það sé verið að vinna að því núna. Þetta tekur tíma því umfangið og flækjustig þessara mála er töluvert.“

Aðeins eru 17 starfsdagar eftir á þingi. Eftir 1. apríl rann út frestur til að koma frumvörpum á dagskrá fyrir sumarhlé. Annað frumvarpanna sem verið er að vinna kostnaðarmat á snýr að húsnæðisbótum.

„Hugsunin með breytingum á húsnæðisstuðningi við leigjendur er að reyna að jafna hann eins mikið og hægt er við þann stuðning sem húseigendur fá í gegnum vaxtabótakerfið. Það er umtalsverður munur á húsaleigubótum og vaxtabótum. Hann sést best á því að grunnbæturnar eru í kringum 33 þúsund í vaxtabótakerfinu á meðan þær eru um 22 þúsund í húsaleigukerfinu.“

Ef grunnbæturnar verða jafnaðar til fulls þýðir það að húsaleigubætur munu hækka um 50%. Eygló segist ekki geta svarað því hvort bæturnar verði jafnaðar að fullu. „Ég vil að þetta verði jafnað eins og hægt er og að húsaleigubæturnar verði samræmdar á einum stað – fari frá sveitarfélögum til ríkisins.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.