Skrá á Airbnb á markað á fimmtudag í þessari viku. Upphaflega stóð til að verðbilið yrði 44 til 50 dollarar sem hefur verið hækkað í 56 til 60 dollara. Útboðsgengið hefur því verið hækkað um 20-27%. Virði Airbnb er allt að 42 milljarðar dollara en félagið var metið á um 31 milljarð árið 2017.

Heimsendingarfyrirtækið DoorDash hyggst skrá sig á markað á miðvikudag í þessari viku. Útboðsgengið er á bilinu 90 til 95 dollarar en áður stóð til að hvert bréf yrði selt á 75 til 85 dollara. Miðað við fyrrnefnt útboðsgengi er félagið metið á allt að 36 milljarða dollara, að því er segir í frétt WSJ um málið.

Í frétt Bloomberg segir að þessi mánuður verði umsvifamesti desember í sögunni hvað varðar frumútboð í Bandaríkjunum. Auk fyrrnefndra félaga hyggjast félögin Affirm holdings, Roblox og ContectLogic skrá sig á markað í mánuðinum. Það sem af er ári hafa safnast 140 milljarðar dollara í frumútboði vestanhafs.