Bandaríski seðlabankinn tilkynnti rétt í þessu um 0,75 prósentu vaxtahækkun og verða stýrivexti bankans nú á bilinu 3,0%-3,25%. Var þetta þriðja 75 punkta vaxtahækkun bankans í röð. Bankinn gaf jafnframt til kynna að von væri á frekari vaxtahækkunum til að ná verðbólgu aftur niður í 2% markmiðið.

Allir tólf nefndarmenn peningastefnunefndarinnar voru einróma um 0,75 prósentu hækkun.

S&P 500, Dow Industrials og Nasdaq Composite hlutabréfavísitölurnar lækkuðu um tæplega 1% við tilkynningu seðlabankans.

Ársverðbólga í Bandaríkjunum mældist 8,3% í síðasta mánuði en hún fór hæst í 9,1% í júní. Verðbólgutölurnar í ágúst voru þó yfir væntingum greiningaraðila sem áttu von á að hún yrði nær 8,1%. Í kjölfarið lækkuðu ofangreindar hlutabréfavísitölur um 4%-5% eftir birtinguna í síðustu viku.