Að mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins munu hækkanir á sköttum og gjöldum hins opinbera, eins og þær birtast í bandorminum svonefnda hækka vísitölu neysluverðs um 0,2% á næsta ári. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Að sama skapi mun kaupmáttur ráðstöfunartekna minnka um 0,2%. Með þessu munu íbúðalán landsmanna hækka samanlagt um 3-4 milljarða króna, þannig gæti höfuðstóll 10 milljóna króna láns hækkað um 200 þúsund. Að óbreyttu munu því ýmis gjöld hækka um áramótin, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag..

Með hækkun bensín-, olíu- og kolefnisgjalds telur FÍB að bensínlítrinn muni hækka um 3,50 krónur. Þá mun áfengis- og tóbaksgjald hækka um 5,1%. Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR gæti það þýtt hækkun á kartoni af sígarettum um 3,5% og vodkaflaska gæti hækkað um 4,3%, að því gefnu að aðrir þættir en áfengisgjald haldist óbreyttir. Bjórdós, 500 ml., gæti hækkað um 2,7%, rauðvínsflaska um allt að 2,8% og rauðvínskassi um 3,8%. Skattar og gjöld á áfengi, tóbaki og eldsneyti hafa hækkað um allt að 68% frá hruni, eða langt umfram verðlag.