*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 24. september 2020 15:06

Hækkað um 87% frá árinu 2016

Forstjóri Isavia sker sig úr þegar kemur að launabreytingum opinberra forstjóra síðan þeir færðust frá kjararáði.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Mesta launahækkun forstjóra opinbers hlutafélags undanfarin ár nemur rúmlega 87%. Í einu tilfelli hafa laun ríkisforstjóra lækkað. Meðaltalshækkun þessa hóps síðastliðin fjögur ár nemur rúmlega fimmtungi. Launavísitala hefur á sama tíma hækkað um ríflega fjórðung. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins (FJR) við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Í kjölfar efnahagshrunsins þótti tilefni til að draga saman seglin hjá hinu opinbera. Æðstu embættismönnum og ríkisforstjórum var því kippt undir valdsvið kjararáðs sem síðan ákvarðaði kaup og kjör þeirra með stjórnvaldsákvörðunum. Það fyrirkomulag var gagnrýnt fyrir að vera svifaseint og árið 2016 var fækkað í hópi þeirra sem heyra undir ráðið. Það var síðan lagt niður árið 2018. Þjóðkjörnir fulltrúar, dómarar, saksóknarar og stjórnendur sérstaklega sjálfstæðra stjórnvalda fá nú laun samkvæmt fastákveðinni tölu í lögum og stjórnendur ríkisstofnana færðust undir kjara- og mannauðssýslu FJR. Aðrir æðstu ríkisstjórnendur, það er forstjórar og framkvæmdastjórar opinberra hlutafélaga eða stofnana í rekstri, fengu samningsrétt sinn aftur og semja að meginstefnu við stjórn um kaup sín og kjör.

Þegar það fyrirkomulag var tekið upp var kveðið á um að FJR bæri að birta með opinberum hætti laun þeirra stjórnenda sem áður féllu undir valdsvið kjararáðs. Það hefur enn ekki verið gert, þó að tæp fimm ár séu frá lagabreytingunni, og beindi Viðskiptablaðið því fyrirspurn um þróun launa þeirra frá árinu 2016.

Drama hjá Pósti vegna Isavia

Svar FJR ber með sér að laun forstjóra Isavia ohf. hafi hækkað mest á tímabilinu. Árið 2016 námu þau 1.573 þúsund krónum á mánuði en hækkuðu upp í 2.507 þúsund krónur árið 2018. Í ár standa þau síðan í 2.950 þúsund krónum. Hækkunin nemur því 87,5% á tímabilinu. Björn Óli Hauksson var forstjóri Isavia þar til í fyrra en þá tók Sveinbjörn Indriðason við.

Annað dæmi má taka af forstjóra Íslandspósts. Árið 2016 námu föst laun hans 1.436 þúsund krónum á mánuði en þá var Ingimundur Sigurpálsson forstjóri fyrirtækisins. Samtímis var hann stjórnarformaður Isavia en Orri Hauksson, forstjóri Símans, gegnir því starfi nú. Af fundargerðum stjórnar Póstsins má ráða að um svipað leyti og kjör forstjóra Isavia hækkuðu hafi Ingimundur nefnt kjör sín til sögunnar. Hann fekk launahækkun um rúmlega 600 þúsund krónur á mánuði árið 2018 og þótti það klént samanborið við starfsbróður sinn suður með sjó. Bókaði hann athugasemdir þess efnis í fundargerð. Eftir að hann hætti störfum hækkuðu laun forstjóra Póstsins á ný og nema nú 2.240 þúsund krónum á mánuði. Hækkunin er því 56%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér