*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 11. febrúar 2021 14:38

Hækkaði laun þriggja embætta

Forsætisnefnd hækkaði nýverið laun æðstu embætta sem starfa í umboði þingsins til samræmis við aðrar hækkanir ríkisins.

Jóhann Óli Eiðsson
Steíngrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Haraldur Guðjónsson

Forsætisnefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum um miðjan síðasta mánuð að hækka laun þriggja embættismanna sem heyra undir ákvörðunarvald nefndarinnar. Þetta kemur fram á vef Alþingis.

Embættin þrjú eru skrifstofustjóri Alþingis, ríkisendurskoðandi og umboðsmaður Alþingis. Samkvæmt ákvörðuninni nemur hækkunin sömu prósentutölu og hækkun þeirra sem fá greidd laun samkvæmt lögum eða 3,4%. Hækkun annarra æðstu embættismanna tók gildi 1. janúar síðastliðinn.

Við niðurlagningu kjararáðs var ákveðið að ákvörðun launa forstöðumanna ríkisins færðist frá ráðinu til skrifstofu kjara- og mannauðs innan fjármálaráðuneytisins. Nokkur störf taka sjálfkrafa breytingum í samræmi við breytingu á meðaltali launa ríkisstarfsmanna. Þar eru til að mynda á ferð forseti Íslands, þingmenn, ráðherrar, dómarar, saksóknarar og ríkissáttasemjari svo dæmi séu tekin.

Þrjú embætti heyra beint undir þingið og ákveður forsætisnefnd kjör þeirra. Það eru, sem fyrr segir, skrifstofustjóri þingsins, umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi. Ekki fylgir sögunni á vef þingsins hver föst kjör þeirra eru nú.