Fasteignareigandi í Hafnarfirði þarf að sætta sig við það að fasteignamat eignarinnar hafi hækkað um tæplega helming á tveggja ára tímabili. Þetta felst í niðurstöðu yfirfasteignamatsnefndar (YFMN).

Fasteignin sem um ræðir er geymsluhúsnæði við Gjáhellu í Hafnarfirði. Árið 2018 var fasteignamat eignarinnar 67,3 milljónir króna en í fyrra hljóðaði matið upp á 93,9 milljónir króna. Þar því á ferð tæplega 38,5% hækkun á milli ára. Þetta þótti eigandanum undarlegt og óskaði hann eftir endurskoðun Þjóðskrár á matinu. Ekki var orðið við því og leitaði hann því til YFMN.

Í rökstuðningi kæranda fyrir nefndinni kom fram að fasteignin væri ekki hefðbundin eða sambærileg öðrum eignum þar sem byggingin sé í raun aðeins útveggirnir einir. Í henni séu engar innréttingar, ekkert rennandi vatn, frárennsli, vinnurafmagn eða neitt slíkt. Þá fylgi henni engin sérstök hlunnindi á borð við náttúrufegurð enda er geymslan staðsett á Völlunum í Hafnarfirði.

Árið 2014 hafði eigandi eignarinnar uppi sambærilegar kröfur fyrir YFMN vegna annarrar eignar sem hann á sem stendur við Steinhellu í Hafnarfirði. Þar hafði hann sigur. Þá bar hann því við fyrir nefndinni nú að hann hafi keypt sambærilegar eignir á höfuðborgarsvæðinu nýverið og því fari fjarri að þær hafi hækkað um tæp 40% í verði á árunum 2016-19. Þessu til viðbótar bættist við hækkun á mati ársins 2020 en hækkun milli áranna 2018 og 2020 nam 48%.

Í rökstuðningi Þjóðskrár kom fram að það eitt að um óhefðbundna eign hafi verið að ræða þá leiði það ekki sjálfkrafa til lækkunar á mati. Sérstaða eigna geti allt eins leitt til þess að eign geti hækkað hátti svo til að tekjuöflunarmöguleikar séu betri sökum hennar. Benti stjórnvaldið á að engir reikningar um leigutekjur hefðu verið lagðir fram vegna húsnæðisins við Gjáhellu. Þá benti stofnunin á að hækkun þeirrar eignar sem um var deilt hafi verið lægri en meðaltalshækkun iðnaðarhúsnæðis á Völlunum það árið en meðaltalshækkunin á matssvæðinu hafi verið 39,4%.

Í niðurstöðukafla úrskurðar nefndarinnar, sem kveðinn var upp 28. nóvember í fyrra en aðeins birtur nýverið, segir að Þjóðskrá hafi byggt mat sitt á svokallaðri tekjuaðferð við hið umþrætta mat. Ástand eignarinnar væri gott miðað við aldur og gerð og henni hefði verið skipt upp í litlar geymslur sem leigðar eru út. Benti nefndin á að hækkun eignarinnar væri lágt miðað við aðrar eignir á svæðinu.

„Eins og áður segir eru tölfræðilíkön ekki óskeikul og það hefur úrslitaþýðingu að ástand eigna sé réttilega metið og samræmis sé gætt við fasteignamat annarra sambærilegra eigna á sama matssvæði. Af gögnum málsins telur yfirfasteignamatsnefnd ljóst að ástand umræddrar eignar sé gott og að ekkert bendi til þess að skráning eignarinnar gefi með einhverjum hætti ranga mynd af henni í samanburði við aðrar eignir í sama flokki,“ segir í úrskurðinum.

Með þeim orðum var fallist á rök Þjóðskrár og stóð matið því óhreyft.