Töluverð aukning hefur verið í fastaeignaviðskiptum undanfarið. Í maímánuði var 399 samningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu þinglýst og í sama mánuði í fyrra voru þeir 192. Aukningin á milli ára er 108%. Heildarfjöldi þinglýstra samninga hefur ekki verið meiri í einum mánuði síðan í lok árs 2007. Það sem af er ári hefur 1.591 samningi verið þinglýst sem er 75% aukning frá sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í frétt frá Greiningu Íslandsbanka.

Þá hefur hlutfall makaskiptassamninga af heildarfjölda þinglýstra samninga dregist umtalsvert saman. Í maí var hlutfall makaskiptasamninga 8% samanborið við 49% í maí 2009 og 26% í maí 2010. Meira er um að íbúðaskaup séu fjármögnuð með peningum.

Samhliða vaxandi veltu hefur íbúðaverð farið hækkandi. Í apríl síðastliðnum mældist hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu 2,7% og er það mesta hækkun sem þannig hefur mælst frá fyrri hluta árs 2008. Í maí 2010 hafði verðið lækkað um 1,0% yfir tólf mánuði og um 10,5% á þessum tíma 2009.

Í frétt Greingar segir að kaupmáttur er nú vaxandi, svartsýnin á undanhaldi, vextir lágir, aðgengi að lánsfjármagni betra og umbætur hafa verið gerðar í skuldavanda heimilanna. Allt þetta hefur nú hvetjandi áhrif á íbúðamarkaðinn. Reiknað er með þessi þróun haldi áfram.