Hlutabréfamarkaðir heims opnuðu grænir í dag. Bandaríska S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 2,2% í fyrstu viðskiptum, Stoxx Europe 600 vísitalan hefur hækkað um 2,0% frá opnun og íslenska Úrvalsvísitalan um 2%. Í umfjöllun Reuters segir hækkanir á hlutabréfamörkuðum megi m.a. rekja til lækkunar á koparverði og öðrum hrávörum sem hefur dregið úr verðbólguvæntingum fjárfesta.

Marel leiðir hækkanir en gengi félagsins hefur hækkað um 3,4% í meira en 400 milljóna veltu. Fimmtán af 22 félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar eru græn í viðskiptum dagsins.

Flaggskip hrávörumarkaðarins sætir árásum

Verð á kopar náði sínu lægsta stigi í sextán mánuði í gær. Verðið hækkaði töluvert í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu en væntingar um minni eftirspurn vegna stýrivaxtahækkana og strangra samkomutakmarkana í Kína hefur leitt til þess að verðið hefur farið lækkandi á síðustu vikum. Eftir lækkanir gærdagsins var koparverð niður rúm 14% frá áramótum.

„[Seðlabanki Bandaríkjanna] er að herða taumhald peningastefnunnar verulega. Það fer að verða dýrt að eiga kopar. Flaggskip hrávörumarkaðarins sætir árásum,“ hefur Financial Times eftir greiningaraðila á hrávörumarkaðnum.

Álverð hefur einnig farið lækkandi á síðustu vikum og er nú komið undir 2.500 dali á tonn. Til samanburðar nálgaðist verðið 4.000 dali í byrjun mars.