Met voru slegin á danska hlutabréfamarkaðnum í dag þrátt fyrir að hlutabréf nokkurra helstu fyrirtækjanna í kauphöllinni hafi lækkað vegna þess að fjárfestar voru að innleysa hagnað. Á vef Börsen er töluvert gert úr því að gengi bréfa lyfjafyrirtækisins Novo Nordisk hafi rofið 1.000 króna múrinn, en gengið endaði í 1.012 dönskum krónum á hlut.

Danska C20 hlutabréfavísitalan hækkaði um 0,49% í dag og endaði í 537,92 stigum. Gengi bréfa Novo Nordisk hækkaði um 1,66% og bréf William Demant, stærsta hluthafa Össurs, hækkuðu um 1,68%.